top of page
Writer's pictureSjofn Müller Thor

Dásamleg jól í Lúxemborg




Það er búið að vera frekar vindasamt í desember og rétt fyrir jólin snjóaði aðeins á fjöllum og örlítið örlaði á snjókornum hérna niðri á flatlendinu milli Köln og Aachen, en þau náðu aldrei að setjast svo að jörð hvítnaði. Að morgni 26. desember, þegar undirrituð var að leggja af staða suður til Lúxemborgar var frekar kalt eða 3 gráður og þoka. Það var enginn farinn af stað til að dreyfa salti og því örlítil hætta á að vegirnir væru hálir, og það fann ég þegar ég fór aðeins of hratt upp beygjuna inn á A44 og bíllinn tók pínu skrans. Það voru fáir á ferð, en samt sem áður einhverjir. Ég velti því fyrir mér hvert fólk væri að fara svona snemma morguns annan jóladag, en ætli aðrir hafi velt því fyrir sér hvert ég væri að fara? Það er svolítið skemmtilegt að keyra frá Aachen til Lúxemborgar. Það þarf að fara yfir mikið fjalllendi og náttúran þarna er undurfögur. Hraðbrautin liggur hátt og að þessu sinni var ég meira og minna fyrir ofan þokuna, sá hana liggja yfir skóginum og þegar ég fór yfir brýr þá teygði þokan sig einhvern veginn upp í mót himins, eins k0nar þokustrókar. Ég hef aldrei séð svona fyrr, þó ég fari oft þarna yfir. Það hafði ekki skinið sól mjög lengi, svo það var notalegt að sjá loks til sólar og fylgjast með hvernig blessuð sólin vann smátt og smátt á þokunni og hvernig landslagið birtist í allri sinni dýrð eftir því sem þokunni létti. Þegar ég var komin alla leið til Medingen og steig út úr bílnum við Dönsku Kirkjuna baðaði sólin allt umhverfið. Ég hlakka alltaf til að koma til Lúx og messa. Ég er búin að þjóna söfnuðinum lengi og hlakka alltaf til að hitta fólkið, hlusta á kórinn og þessi jól hafði ég fengið tvo úrvalssöngvara til að koma og syngja við messuna, þau Hrólf Sæmundsson og Maríu Sól Ingólfsdóttur. Ég get varla lýst því hversu dásamlegt það var að hlusta á kórinn og þau tvö syngja falleg jólalög. Það var líka gaman að sjá fermingarbörnin frá því síðast koma í kirkjuna ásamt fjölskyldum sínum í bland við kjarnann okkar góða. Margsinnis á meðan á messunni stóð og kórinn var að syngja eða söngvararnir okkar og ég hafði smá rúm í kollinum fylltist ég mikilli þakklætis tilfinningu. Mér fannst svo óraunverulegt að fá að sitja þarna í þessari fallegu litlu kirkju, umvafin öllu þessu yndislega fólki, söfnuðinum mínum, og hlusta á undurfagra tónlist flutta af litla kórnum okkar og stórsöngvurum. Ekkert af þessu er sjálfsagt og það er stórkostlegt að fá að upplifa þetta og finna um leið hvernig Heilagur Andi kemur inn í kirkjuna og inn í hjartað.

Að messu lokinni er svo haldið á jólaball. Íslendingafélagið hefur staðið fyrir jólaballi um áraraðir og það er gaman að sjá að unga fólkið kemur með börnin sín á ballið. Það var mikil stemming á ballinu og gat ég alls ekki á mér setið að fara og dansa og syngja með. Við hlið mér var ungur maður með lítinn gutta í fanginu, sennilega á öðru ári, og litli snúðurinn skemmti sér svo vel þar sem hann horfði yfir öxlina á pabba sínum og á mig og brosti sínu breiðasta og hló inn á milli. Honum fannst jólaballið svo skemmtilegt og svo fyndið að horfa á okkur þarna dansandi. Reyndar hló ég líka mikið því margir skemmtu sér við að nútímavæða bæði orð og hreyfingar við þessi stórundarlegu jólalög sem við syngjum. Svona gerum við er við þvoum okkar þvott...einhver var þarna bara að setja í vél....og ég enn að nota þvottabretti. Svo kann enginn að strauja. Og ég gat alls ekki sungið með Nú skal segja því Hrólfur hafði svo margar frábærar hugmyndir um það hvað litlar stelpur og strákar og ungir piltar og stúlkur gera, svona dagsdaglega annað en að hneygja sig. Við vorum hins vegar sammála um að gamlar konur stundi það enn að prjóna sokka. Guði sé lof fyrir það, því ef ekki væri fyrir prjónaskap eldri kynslóðarinnar, ætti ég ekki hlýja sokka og lopapeysur. En það er ekkert bara fyrir gamlar konur og þær gera margt annað. En okkur fannst við geta sundið þetta erindi svona eins og það er. Og svo þetta með að gömlu karlarnir taki í nefið. Ég þekki engann sem tekur í nefið en maður bara verður að syngja þetta svona af því að maður er búinn að vera að byggja upp spennuna frá því að lagið byrjaði að enda það með stærsta hnerra veraldar. Þessu erindi verður ekki breytt. Já þetta var skemmtilegt jólaball og eiga sjálfboðaliðarnir hjá Íslendingafélaginu þakkir skilið fyrir að gefa tímann sinn í að halda þessum sið gangandi svo að komandi kynslóðir geti lært hvernig Adam sáði og klappaði saman lófunum og hversu vel andarungar synda og hvernig. Samstarf Íslensku Kirkjunnar í Lúxemborg og Félags Íslendinga í Lúxemborg er mjög mikilvægur þáttur í því að halda íslenskri menningu gangandi fjarri Íslands ströndum. Við þökkum FÍL fyrir stuðninginn við starfsemina okkar og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Að lokum þökkum við fyrir liðið ár og óskum ykkur gleði og blessunar á nýju ári.




7 views0 comments

Recent Posts

See All

تعليقات


bottom of page