Það er orðið nokkuð síðan að ferming fór síðast fram í söfnuðinum í Lúxemborg. Sunnudagurinn 5.5. 2024 var því dagur sem beðið hafði verið eftir með eftirvæntingu af allra hálfu. Vorveður hefur ekki verið uppi á marga fiska þetta árið. Síðustu vikur hafa verið votar og kaldar og var það því enn meira gleðiefni að blessuð sólin léti sjá sig öðru hverju og að hitastigið hafi farið það mikið upp að hægt var að standa úti fyrir framan kirkjuna í fermingarkirtlunum án þess að frjósa úr kulda. Þegar kirkjuklukkurnar hringdu gengu fermingarbörnin fjögur hægt og fallega inn kirkjugólfið við hátíðlegan orgelundirleik, þar sem kirkjugestir risu úr sætum og heilsuðu ungmennunum brosandi. Hvert sæti var skipað og stoltið skein úr augum foreldra og ættingja fermingarbarnanna. Börnin sátu prúð og stillt og hlustuðu með athygli á kórsönginn, sem fyllti loft kirkjunnar og ómaði út á götu, og orð prestsins. Þegar Hrólfur Sæmundsson hóf up raust sína og hóf að syngja varð presti litið í átt til fermingarbarnanna og þóttist hún sjá undrun og aðdáun í svip þeirra er þau hlustuðu á undurfagran sönginn. Þau gerðu sér greinilega grein fyrir því hversu heppin þau voru að fá að vera í návígi hans og hlusta á einstakan söng hans. Söfnuðurinn reis svo úr sætum og tók undir Þjóðsönginn með Hrólfi og er varla hægt að lýsa því með orðum hvernig það var að standa fyrir framan fulla kirkju og hlusta á söfnuðinn taka undir. Mjög margir gengu með fermingarbörnunum til altaris og nutu söngs Farfuglanna á meðan á því stóð og þó svo að athöfnin hafi tekið örlítið lengri tíma en presturinn hafði gert ráð fyrir, gengu fermingarbörn og kirkjugestir glaðir út í sunnudaginn að athöfninni lokinni. Við þökkum öllum þeim sem hjálpuðu til við að gera athöfnina svona fallega. Sérstaklega þökkum við Hrólfi, Farfuglunum og Daniel Malnati organista, sem og Huldu Guðnýju fyrir lesturinn sem og Íris og Marieanne kirkjuvörð hjá Dönsku Kirkjunni hjálpina við fráganginn.
top of page
Íslenska Kirkjan í London og Lúxembourg
bottom of page
Comments