top of page

Jólastemming hjá Íslensku Kirkjunni í London

Writer's picture: Sjofn Müller ThorSjofn Müller Thor
Mynd: Inga Lísa Middleton

Um aðra helgi aðventunnar var mikið um að vera hjá Íslendingum í London. Helgin hófst á einu af verri ofsaveðrum sem gengið hafa yfir Bretlandseyjar með alls kyns afleiðingum. Þó svo að veðrið hafi verið að mestu gengið niður að morgni annars sunnudags í aðventu þá voru samgöngur enn í nokkrum ólestri sem olli smávægis óróleika hjá prestinum. Það er eiginlega alltaf erfitt að komast á milli staða á Bretlandi. Lestarkerfið er ekki alveg eins slæmt og það er í Þýskalandi, þar sem það stenst hreinlega aldrei, en oftar en ekki og þá sérstaklega eftir óveður, þá geta orðið tafir. Um korteri fyrir upphaf Guðsþjónustunnar kom organistinn okkar, hann Robin Walker, sem er alltaf kominn mjög snemma, sveittur hlaupandi upp kirkjutröppurnar en enn sem komið var voru ekki margir aðrir en kórinn á kirkjubekkjunum. Gunnhildur og börnin hennar voru þó komin og voru í óða önn við að koma kertunum í stand til þess að börnin gætu gengið inn með þau eins og venjan er í upphafi Jólaguðsþjónustunnar. Þegar klukkuna vantaði bara 3 mínútur í tvö, leit út fyrir að það yrði fámennt í messunni þessa aðventu en allt í einu fór fólk að hópast að og fimm mínútum seinna var nánast hvert sæti tekið. Orgelið í Sænsku Kirkjunni er búið að vera í viðgerð um nokkurt skeið og því sat Robin við flýgilinn og þegar hann hóf að leika forspilið gengu börnin inn, hægt og rólega með logandi kerti í hönd. Þau stilltu sér upp fyrir framan altarið og biðu þolinmóð eftir að fá að kveikja á aðventukransinum. Þetta er alltaf svo dásamlega hátíðlegt. Börnin svo stolt en smá feimin kveiktu svo á tveimur kertum á aðventukransinum og sungu sálminn ,,Við kveikjum einu kerti á". Íslenski söfnuðurinn stendur í mikilli þakkarskuld við Íslenskuskólann og Félag Íslendinga í London fyrir mikilvægt og gott samstarf. Í ár komu börn úr Íslensku Skólanum og sungu tvö lög fyrir söfnuðinn og sögðu okkur svo frá því hvað þeim þótti skemmtilegast við jólin. Það var ekki laust við að það kæmi smá kusk í augun við að horfa á blessuð börnin segja okkur hvað jólin eru þeim mikilvæg. Helgi kórstjóri og Íslenski kórinn í London voru búin að æfa dásamlegt jólaprógram og það er óhætt að segja að þegar þau sungu sveif Heilagur Andi yfir kirkjunni. Við erum afar þakklát fyrir kórinn og Helga, fyrir að gefa sér tíma til að koma og taka þátt í því sem við erum að gera. Helgi, sem er búsettur í Brighton, er einstaklega fær tónlistamaður og tónskáld og hann er mikill happafengur fyrir samfélagið okkar allt.

Að Jólaguðsþjónustunni lokinni var kominn tími til að dansa í kringum jólatréð. Íslendingafélagið hafði komið jólatrénu fyrir á miðju gólfinu og svo var dansað eins og jólin væru komin. Jólasveinarnir komu svo í heimsókn og gáfu börnunum góðgæti í poka. Það var margt um manninn og heill hellingur af litlum krílum sem skemmtu sér konunglega á ballinu. Við þökkum öllum sem komu, tóku þátt, hjálpuðu við undirbúnin, frágang og nutu með okkur þennan dásamlega sunnudag og hlökkum til að sjá ykkur aftur á mæðradaginn 30. mars 2024.



17 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page