top of page
Writer's pictureSjofn Müller Thor

Ný safnaðarstjórn á 17. júní

Updated: Sep 16

Gleðilega þjóðhátíð kæru landar.

Um liðna helgi var margt um að vera hjá samfélagi Íslendinga í Lúxemborg. Félag Íslendinga efndi til hátíðarhalda í Berdorf og ekki stóð á safnaðarnefnd Íslensku Kirkjunnar að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd með FÍL.

En dagurinn hjá Íslenska söfnuðinum hófst á göngu þar sem rölt var í rólegheitum í ævintýralandinu í kringum Berdorf, þar sem búast mátti við Hobbitum og álfum hoppandi úr hverjum steini og kletti. Náttúrufegurðin þarna gaf gott tilefni til að íhuga tilvist Guðs, og hvernig við getum nýtt öll skilningarvit okkar til að skynja, sjá, heyra og skilja Guð allt í kringum okkur. Þegar göngukonur komu til baka upp á svæði voru dugnaðarforkarnir búnir að setja upp borðin og voru í óðaönn að setja upp fánana og pylsurnar í Bæjarins Bestu pylsupottinn og senn fóru Íslendingar að streyma að. Undir fallegri íslenskri tónlist gæddi fólk sér á íslenskum pylsum og pylsubrauði sem komu með fluginu um morguninn, og dýrindis kökum sem fólk hafði bakað og komið með. Veðrið var eins og það best gerist á suðvesturhorninu á Íslandi, frekar kalt og vindur, en sólin yljaði inn á milli. Við fengum svo skemmtilega tröllkonu í heimsókn, hana Aldísi Guðrúnu Gunnarsdóttur sem las fyrir okkur úr bókinni sinni um hann Trölla litla og skilnað foreldra hans. Börnin nutu þess að leika sér á leikvellinum, sem er einstaklega skemmtilegur á meðan fullorðna fólkið spjallaði, rifjaði upp gamla tíma og nýja og naut þess að eiga samfélag sama.

Á aðalsafnaðarfundi í apríl var kjörin ný stjórn Íslenska Safnaðarins í Lúxemborg. Margir úr henni komu á hátíðarhöldin og hjálpuðu til.

Nýja stjórn skipa

Sólveig Stefánsdóttir Formaður

Bjargey Elíasdóttir Varaformaður

Íris Þorkelsdóttir Gjaldkeri

Hulda Guðný Valsdóttir Meðstjórnandi

Margrét Rósa Jóhannesdóttir

Björg Gunnsteinsdóttir

Gylfi Tryggvason



92 views0 comments

Comments


bottom of page