top of page

Vel heppnuð Haustguðsþjónusta í Lúxemborg

Writer: Sjofn Müller ThorSjofn Müller Thor

Haustguðsþjónusta íslenska safnaðarins í Lúxemborg fór fram síðastliðna helgi. Kórmeðlimir úr Íslenska Kórnum í London undir stjórn Helga R. Ingvarssonar heimsótti söfnuðinn og söng ásamt

meðlimum úr Farfuglum, íslenska kórnum í Lúxemborg undir stjórn Tinu Zeiss. Í Guðsþjónustunni fóru tvær skírnir fram þar sem þær Elísabet Berglind og Lóa Marie voru skírðar sem jók á hátíðleika stundarinnar.

Guðsþjónustan var haldin í dönsku kirkjunni í Medigen skammt fyrir utan höfðuborgina en hún er einkar falleg og tekur vel utanum söfnuðinn. Kórinn mætti snemma til þess að æfa sig og fékk svo nesti í haustblíðunni fyrir utan kirkjuna. Það má með sanni segja að heilagur andi hafi verið með okkur en það fannst sérstaklega þegar allur söfnuðuinn stóð á fætur og söng “Þig lofar Faðir líf og önd” af fullum krafti svo að ómaði inn í öll skúmaskot og jafnvel sálir allra viðstaddra. Að Guðsþjónustu lokinni var haldið í safnaðarferð til Trier í Þýskalandi í langferðabíl á veitingastað með dásamlegt útsýni yfir Trier og Móseldalinn. Kórinn tók nokkur lög, meðal annars gullfallegt lag Brynjólfs Sigfússonar við ljóð Sveinbjörns Sveinssonar, Sumarmorgun á Heimaey og var ekki við það að Vestmannaeyingar í útlegð í Lúxemborg fengu kusk í augun. Hópurinn hélt svo heim um kvöldið fullur þakklætis eftir dásamlega vel heppnaða ferð.

Við þökkum þeim sem skipulögðu daginn og þeim sem tóku sér tíma til að vera með okkur hjartanlega fyrir og hlökkum til að sjá ykkur í Jólaguðsþjónustunni 26.12.2023.

Ljósmyndirnar tóku Diðrik Eiríks, Bryndís Kristjáns og Sjöfn Mueller Þót







 
 
 

Comments


Íslenska kirkjan í London og Luxembourg

©2023 Íslenska kirkjan í London og Lúxembourg.  Created with Wix.com

bottom of page