top of page

Skemmtilegum fermingarbúðum lokið

Hinar árlegu fermingarbúðir Íslenska Safnaðarins í Lúxemborg voru haldnar síðustu helgina í febrúar. Það var mikil gleði að geta komist aftur upp í sveit eftir hlé sem við þurftum að taka vegna Covid. Sveitin tók vel á móti okkur, en búðirnar eru haldnar á landamærum Belgíu og Þýskalands, á svæði sem kallast Hohes Venn. Húsið okkar, Paulus Haus, er í eigu félags sem hefur það markmið eitt að viðhalda og leigja út húsið og stendur, næst yst í pínulitlu þorpi. Þetta er sennilega einn af fáum stöðum sem finna má í dag þar sem ekkert internet er og nánast ekkert símasamband sem gerir dvölina mun notalegri. Að þessu sinni tóku fjögur fermingarbörn þátt, en á síðustu stundu hafði fækkað um tvo í hópnum. Fermingarhelgin hófst eins og venjan er á að fermingarbörnin skreyttu fermingarkertið sitt, fengu kvöldsnarl og horfðu á bíómynd. Í húsinu er stór salur þar sem hægt er að fara í borðtennis og leika sér og nutu börnin þess að hafa þetta svæði í frístundunum. Laugardagurinn fór svo í að fræða börnin um Kristna trú og öllu því sem henni tilheyrir en að lokum löngum degi, var skroppið til Monschau og þessi fallegi bær skoðaður, farið í nammibúðina og útiverunnar notið. Eins og oft gerist þarna uppi í sveitinni, sem liggur nokkuð hátt fyrir ofan sjávarmál, sjóaði, sem jók enn á góðu stemminguna. Því miður náði snjórinn þó ekki að setjast almennilega svo ekki var hægt að fara út að leika sér í snjónum. Um kvöldið var svo altarisganga og eftir hana, fórum við út í skóginn, kveiktum á kertum og börnin gengu ein í gegn um myrkrið, með kertin til að lýsa sér leið. Á göngunni minntust þau þess að Guð er alltaf með þeim í för. Presturinn hafði reyndar stungið upp á því við fermingarbörnin að sleppa þessari göngu í myrkrinu, enda farinn að hafa áhyggjur af því að vera að valda börnunum einhverju trauma með því að láta þau ganga ein í myrkri úti í skógi, en þau tóku það ekki í mál og vildu endilega halda í þennan sið og gengu glöð út í myrkrið. Ef til vill var það presturinn sem var farinn að vera hálf hræddur við myrkrið í skóginum, enda fer hann á undan, kveikir á kertunum og hlustar eftir öllu því lífi sem fer á stjá í myrkrinu í skóginum. En það heyrðist ekkert hljóð, ekkert rót í villisvínum, ekkert gagg í ref, ekkert gól í úlfum en það var léttir yfir prestinum þegar hópurinn gekk til baka í björtu tunglsljósinu.

Lokadagurinn rann upp og börnin sömdu bænir til þess að flytja í Guðsþjónustunni fyrstu helgina í mars. Börnin voru dugleg að taka til og ganga frá eftir sig og það var ánægður hópur sem hélt heim á leið eftir helgina. Kærar þakkir elsku fermingarbörn, fyrir skemmtilega helgi, áhugaverðar spurningar og góðar pælingar. Guð blessi ykkur.



34 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page